Ormhildur neitar að veiða múshveli í súpuna hans Alberts og Hallgrímur ákveður að reka þau á dyr. Til að komast hjá því leggur Albert af stað í hættulega skoffínveiðiferð. Ormhildur finnur slasað skoffín og kemst að því að hún er sú eina sem þolir banvænt augnaráð þess. Bilaði verndargripurinn hans Alberts gæti verið þeirra eina von.
Ormhildur sækir nykratað við Nykurvatn til að setja á eldinn. Óvart kemur lítið nykurfolald með henni heim. Litla skrímslið veldur uppnámi á eyjunni. Íbúarnir eru þjáðir af þorsta því Hallgrímur hefur sölsað undir sig allt vatnið. Hann bælir reiði þeirra með göldrum. Hann vill ekki að Albert noti galdra til að láta allt verða eins og það var fyrir flóðið.
Ormhildur, Albert og Guðrún leita að Týndu bókinni á Eyju safnarans. Þar rekast þau á Grétu, sem vann einu sinni með Alberti, og vill ná sér niðri á honum. Áform hennar koma í ljós þegar Álfur handsamar Albert. Guðrún og Ormhildur flýja með Týndu bókina í farteskinu.
Guðrún og Ormhildur uppgötva galdrahelli þar sem þær geta framið öflugan endurreisnargaldur. En það er bara mánuður til stefnu. Þegar Álfur og menn Hallgríms nálgast ræna þær Brynhildi sem flýgur með þær af stað. Albert sleppur naumlega úr háska þegar risastór haförn kemur honum til bjargar.
Flugvélin brotlendir og Ormhildur og félagar lenda í átökum við risastór skeldýr. Þau sleppa naumlega með því að flýja inn í dimma og óhugnanlega verksmiðju þar sem skeldýrin sjá ekkert. Hallgrímur er gerður að leiðtoga Breiðholtseyju og sendir Álf að sækja Týndu bókina og stöðva hetjurnar. Inni í verksmiðjunni finnur Ormhildur ískulda frá ósýnilegum krafti sem hvíslar: „DEYÐU“, og skugga með glóandi augu sem eltir þau.
Hallgrímur lærir að nota verndargrip Alberts. Brynhildur gerir við gamlan jeppa í verksmiðjunni. Kisi nær dularfullri flautu af ærslafullum púka. Ormhildur yfirbugar púkann og notar flautuna til að óska sér og hópnum í galdrahellinn. Smávegis mismæli senda þau í rangan helli. Álfur og önnur handbendi Hallgríms kljást við skeldýrin.
Hópurinn vaknar í dimmum helli. Þar er risatröllið Rauður með kindahjörð sína og hótar að breyta þeim í sauði nema þau geti leyst þrjár þrautir. Með heppni og klókindum tekst þeim að snúa vörn í sókn. Kindahjörðin ýtir Rauð fram af kletti og breytist aftur í fólk.
Hópurinn fær skjól hjá Hildi heilara. Ormhildur fer að leita jurta og lendir þá næstum í klóm Rauðs. Alberti tekst að flýja úr hafarnarhreiðrinu. Þrjár ástsjúkar skessur handsama hann, þvinga hann til að vinna og krefjast þess að hann giftist þeirri elstu. Álfur fellur í hendur Rauðs.
Hópurinn uppgötvar að ræningjar hafa látið greipar sópa um þorpið og fólkið sveltur. Brynhildur hvetur það til að berjast. Albert reynir að flýja en skessurnar breyta honum í fisk. Ormhildur og Guðrún halda að þær hafi fundið jeppa til að komast nær eldfjallaeyjunni Heklu en það reynist sjónhverfing. Loks ákveða nágrannaþorpin tvö að vinna saman í staðinn fyrir að berjast.
Guðrún kemst að því að vandræði þorpsins stafa af afkvæmum urðarkattar. Þorpsbúar safna kettlingunum saman og Ormhildur vill að þeim verði sleppt uppi í fjöllum. Á leiðinni mæta þau mannýgu nauti sem Guðrún ruglar rækilega í ríminu svo það lætur þau vera. Álfur fellst á vopnahlé við Rauð þegar hann kemst að því að þeir eiga sameiginlega andstæðinga í Ormhildi og hópnum hennar.